Jii minn einu hvað ég er syfjuð...
Klukkan 6 í morgun tísti kór af dídídídídí frá símunum okkar Óla. Óli fór á fætur og spurði
"ætlarðu að koma með mér?" Það var nokkuð ljóst að hvorugt okkar var að nenna að fara í ræktina og bæði vildum við að hitt myndi segja "lúllum frekar lengur" en þegar báðir aðilar bíða eftir að annar taki af skarið þá gerist yfirleitt ekki neitt. Nema hvað við klæðum okkur og Óli fer út að moka af bílnum. Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá ykkur að það snjóaði doldið vel í nótt. En það reyndist þrautin þyngri að koma bílnum út af bílastæðinu og sátum við pikkföst og losnuðum ekki fyrr en Óli fór út og ýtti. Þegar þarna var komið var orðið of seint að fara í ræktina og við tók ævintýrið mikla að finna stað til að skilja bílinn eftir þar sem við myndum ekki festast aftur. Það tókst á endanum og það voru þreytt og köld Herra og Frú Ulrich sem komu inn á Eggertsgötunni... Núna sit ég og horfi út um gluggann á rokið og snjóinn og hugsa með hrylling til þess að þetta sé bara forsmekkurinn því að á morgun er spáð snarbrjáluðu veðri, dýpstu lægð vetrarins. Það er eins gott að það verði samt fært á morgun því að ég ætla sko ekki að missa af sónartímanum sem ég er búin að bíða eftir síðan 13. desember þegar við fórum síðast í sónar. Þannig að ég set inn myndir af litlu elskunni á morgun :D
Við áttum rosa notalegt kvöld, Nonni frændi kom í mat með kærustinni sinni henni Ástu og var borðað vel og mikið, spjallað og hlegið. Ég var afskaplega ánægð með að vera í óléttuvænum fötum eftir matinn hehehe!
Við Óli horfðum svo á stórmerkilega heimildarmynd sem heitir
Blue eyes Brown eyes og fjallar um kennara að nafni Jane Elliot sem hefur stundað róttæka fordómafræðslu síðan Dr Martin Luther King var myrtur. Þessi mynd er vægast sagt sláandi!! Þó að megináherslan sé á kynþáttafordóma hjá henni, vinnur hún líka með kynjamisrétti, fordóma fyrir samkynhneigðum og fötluðum. Eitt fannst mér virkilega rista djúpt sem hún sagði við eina konu í myndinni, þessi kona var að svara spurningu og spilaði sig soldið kjánalega og barnalega.
"Ekki vera krútt, hættu því! Að vera krúttleg og sæt virkar kannski þangað til að þú verður 45 ára en þá verða fullt af 18-40 ára konum sem verða miklu sætari og meira krútt en þú og þá vilt þú fara að fá stöðuhækkun en enginn tekur þig alvarlega því að þú ert búin að eyða lífinu í að spila þig sem kjánalegt krútt. Vertu dugleg, klár skynsöm og sjálfsstæð!" Konur eru nefnilega ekki saklausar af því að viðhalda staðalmyndum um sig, sumar konur taka sjálfar sig ekki alvarlega, gera eingöngu út á kynþokka sinn, og gera þar með lítið úr sér og öðrum konum erfiðara fyrir.
Og þar hafið þið það!
- Játaði Karen
þriðjudagur, febrúar 05, 2008
It´s a christmas miracle!!!
Undur og stórmerki gerðust í morgun kl 6...
Við Óli mættum saman í ræktina, mikið var það gaman. Mér finnst svo gaman að æfa með elskunni minni :D
Vorum mætt rétt rúmlega 6 tókum efri parts lyftingar og vorum komin heim um það leyti sem við erum oftast að vakna. Ótrúlega hressandi en ólétta konan gleymdi sér aðeins og fór að æfa á fastandi maga sem var ekki svo sniðugt og orkan því ekki alveg eins góð og venjulega. En svona er vaninn fastur í manni, yfirleitt æfi ég alltaf á fastandi maga á morgnanna því að það eykur grunnbrennsluna en á þessu skeiði í lífi mínu þá er grunnbrennslan ekki eitthvað sem ég er að hugsa um og þá verður maður líka slappur ef maður fer fastandi að taka á því.
Ég var að breyta aðeins námskeiðsskráningunni minni í skólanum, kom í ljós að ég var BÚIN að taka annan áfangan sem ég var skráð í, það var bara búið að breyta um nafn á honum. Þannig að í staðin fyrir að vera í Þróunarsamvinna: Stefnur og stofnanir verð ég í Hagnýting
jafnréttisfræða: Frá bróðurparti til systkinalags...Spennó!! Ég er reyndar rosa spennt fyrir kynjafræðinni og þetta verður á svipuðum nótum og það sem ég var að gera í henni fyrir áramót. Ég er nefnilega búin með alla skylduáfangana í M.A náminu í Þróunarfræði og þarf að fara að drífa í að skipuleggja lokaritgerðina. Fljótt að líða...
- Játaði Karen
sunnudagur, febrúar 03, 2008
Ti nea???
Það er von að fólk spyji sig hvað sé að frétta af ungfrú Ulrich, enda ansi langt síðan ég bloggaði síðast. En ég var svo óheppin að eyða miðvikudegi, fimmtudegi og föstudegi í það að vera lasin. Það var ekkert rosalega gaman og er sófinn kominn með permanent Karenar far á sig. En gærdeginum var eytt í öllu skemmtilegri hluti en við skelltum okkur á Skagann í mat hjá tengdó og co, rosa gaman og svo var haldið á Skrúðgarðinn þar sem Óli og Arnar trylltu lýðinn með tónlistarflutningi :D Við vorum ekki komin heim fyrr en að verða 2 í nótt og mikið var gott að skríða undir sæng og láta lítinn fjörfisk halda fyrir sér vöku með eins fósturs Íslandsmeistaramóti í bumbusprikkli FREESTYLE! En það hafa sko leiðinlegri hlutir haldið fyrir manni vöku í gegnum tíðina og þetta var nú bara yndislegt og líka yndislegt þegar krílið var uppgefið eftir lætin og við gátum farið að hvíla okkur. Í dag var svo moving day hjá Þóru mágkonu og var flutningum rumpað af á no time af hraustu fólki og ég fékk að vera svona mest upp á punt þar sem að minn heittelskaði er sannfærður um að ég þekki ekki takmörk mín og sá til þess að ég héldi mig á mottunni :þ Mér var hugsað til þess hversu fyndið það er þegar fólk kallar Reykjavík Borg Óttans...ég held því reyndar fram að enginn sem er fæddur og uppalin í Rvk myndi láta sér detta í hug að kalla þessa dásamlegu borg svona kjánalegu nafni og þeir sem í alvörunni telja Reykjavík vera borg óttans ættu að íhuga að ferðast meira!!! Við Soffía saklausar og grænar fengum okkur til dæmis hótelherbergi á Omonia torgi í Aþenu. Hvernig áttum við að vita að Omonia væri ekta stórborgar torg fullt af dópistum, og hættulegu fólki. Þarna vorum við að trítla um síðla nætur í afar stuttum pilsum og tókst einhvern veginn að komast hjá því að vera rændar og drepnar. Kannski það hafi hjálpað að við vissum ekkert hvað við vorum á hættulegum stað. En kannski ef maður er vanur minni stöðum þá getur Rvk virkað hættuleg, mér er minnstætt þegar ég þurfti í gamla daga að fylgja 15 ára gömlum vini mínum frá Vestmannaeyjum heim til systur sinnar á kvöldin því að hún bjó í miðbænum. Og hann var yfirleitt virkilega skelkaður á leiðinni. Ég man líka hvað mér fannst hann SVEITÓ fyrir vikið :þ

Aþena Borg Óttans???
- Játaði Karen