Christós Anésti - Kristur er upprisinn....Alithós Anésti - Hann er sannarlega upprisinn!
Í maí 2002 hélt ég upp á páskana í annað sinn. Þá var ég komin til Krítar þegar að Gríska rétttrúnaðar kirkjan fagnaði páskahátíðinni. Það var virkilega gaman að taka þátt í því.
Ég fór ásamt Stefanie þýsku vinkonu minni, pabba hennar og danskri samstarfskonu að stærstu kirkjunni sem var í miðbænum. Þetta var á laugardagskvöldi um 22 kvöldið fyrir páskadag.
Allir voru með kerti, löng og mjó sem við keyptum af sígaununum. Prestarnir komu út og messuðu yfir fjöldanum sem var samankomin á torginu fyrir framan kirkjuna. Síðan var ljósið látið ganga, prestarnir kveiktu á kertum og fólkið lét eldinn ganga þar til allir voru með ljós á kertunum sínum og óskuðu hvoru öðru gleðilegra páska. Eftir það var vandinn bara að komast með kertið logandi heim til að gera krossmark á hurðina sína og láta það brenna alla nóttina til að blessa heimilið. Á miðnætti opnuðu svo öll veitingahús og buðu upp á páskalamb og hátíðarhrísgrjón sem eru sjúklega góð og bara í boði í brúðkaupum, trúlofunarveislum og við trúarleg tilefni.
Rauðlituð egg má finna á öllum veisluborðum en trúin segir að María hafi litað egg rauð til að fagna upprisu Jesú. Síðan á maður að taka egg (sem btw er harðsoðið) og slá því í egg einhvers annars. Sá sem er með eggið sem brotnar ekki vinnur og sá sem heldur sínu eggi lengst óbrotnu má eiga von á mikilli gleði og lukku á árinu.
Mér fannst það alveg merkilegt að taka þátt í páskahátíð svona ólíkri minni, oftar en ekki eru páskarnir ekki á sama tíma hjá grikkjunum og hjá okkur en í ár lenda þeir á sama degi. Þannig að einmitt núna er fólk að ljúka við að borða páskamatinn og fjörið rétt að byrja.
Hér á bæ er allt hins vegar með kyrrum kjörum, feðgarnir sofa vært annar í rúminu sínu, hinn í sófanum. Ég er búin að vera fárveik og ekki farið út síðan á miðvikudag, ekki skemmtilegasta leiðin til að eyða páskafríinu en ég er að minnsta kosti búin að hvílast vel og ná að læra heilmikið. Annars er það bara súkkulaðiát og vonandi betri heilsa á morgun.
Gleðilega páska krúttin mín og til að enda þetta aðeins á trúarlegu nótunum þá læt ég fylgja skemmtilegan texta úr helgileiknum Þjáningarbrautin.
Tóm er gröfin og opin,
því er ekki meistarinn hér?
Klæðin hans liggja þar inni enn,
en enginn veit hvar hann er.
Enginn veit hvar hann er.
Upprisinn er hann, húrra, húrra.
Hann lifir, hann lifir, hann lifir enn.
Hann lifir, hann lifir, hann lifir enn.
- Játaði Karen
miðvikudagur, apríl 04, 2007
TGIW
Thank God It´s Wednesday!
Loksins er hann runninn upp þessi föstudagur dulbúinn sem miðvikudagur, mikið er ég búin að bíða hans óþreyjufull. Það er ekki búið að vera auðvelt að þurfa að mæta í vinnu á morgnana og Óli fær að vera heima í fríi. Mjög leiðinlegt!
En þetta er síðasti dagurinn og ég get ekki beðið eftir því að klukkan verði 16.
Ég hef á stundum kvartað sárlega undan meðferðinni sem ég fæ í vinnunni af höndum fólks sem er ósátt við allt skrifræðið. En sumir sem maður afgreiðir eru virkilega sáttir og þakklátir fyrir þjónustuna. Það kom indæll maður til mín á mánudag með allt í rugli og ég var langt eftir lokun að reyna að greiða úr flækjunni fyrir hann svo að hann kæmist til útlanda um páskana með konunni sinni. Hann kom svo aftur í gærmorgun og við héldum áfram að reyna að redda öllu fyrir kallgreyið, sem tókst að lokum. Hann kom svo til mín í hádeginu og færði mér Nóa páskaegg af stærstu gerð til að þakka mér fyrir alla hjálpina. Ekkert smá krúttlegur.
Svo fékk ég annað risapáskaegg frá vinnunni þannig að við erum vel sett á heimilinu páskaeggjalega séð :þ Eins gott að ég mætti í ræktina í morgun.
Fór að hitta Möggu, Röggu+ bumbubúa og Arnþór englabossa eftir vinnu í gær.
Ekkert smá notalegt og við borðuðum saman og spjölluðum fram á kvöld og það er langt síðan við höfum átt svona rólega og notalega stund vinkonurnar. Lóa mín, þín var saknað eins og alltaf!
Ég er með villidýr í pössun fram að Benidorm en hann litli bróðir minn skyldi augasteininn sinn eftir hjá mér þegar hann fór til Kanarí. Ástkær bílinn hans er í pössun hjá mér, hann gat ekki hugsað sér að hann stæði óhreyfður í 2 vikur blessaður anginn. Gaman gaman!
Matarboð í kvöld þar sem að ég ætla að setja mig í hlutverk Nigellu og elda einhvern pottrétt úr hennar forðabúri. Og svo er bara unaðslegt páskafrí..........
Hafið það ofurgott um páskana og borðið yfir ykkur af súkkulaði.
Svona verð ég smart í kvöld :þ
- Játaði Karen
mánudagur, apríl 02, 2007
Smokin´ baby
Þann 1. júní næstkomandi verður ánægjulegur dagur fyrir okkur í reyklausa liðinu... þá verður sett bann á reykingar á veitingahúsum og skemmtistöðum. Þetta verða vissulega viðbrigði fyrir marga en ég er nokkuð viss um að eftir stuttan tíma mun þetta hafa vanist og við verðum búin að gleyma því að þetta mátti einu sinni. Það er ekki svo langt síðan að það mátti reykja í skólum og opinberum byggingum núna finnst manni það fráleitt og gerir grín af þeim löndum þar sem búast má við reykjarmekki í bönkum og á pósthúsum. Það eru einhverjar raddir sem heyrast grenja um forræðishyggju og fasisma, en það er mitt álit að réttur minn til að anda hreinu lofti er sterkari en val reykingamanna um að menga það fyrir mér. Ég vil alls ekki banna reykingar....úti :þ
Vonandi verður séð til þess að reykingarmenn hafi góðan stað úti við til að fá sér smók og býst ég við að skemmtistaðir muni sjá sóma sinn í að gera útiveruna sem þægilegasta fyrir þá.
Á meðan ætla ég að fagna því að kúgun minni til að anga eins og hangikjöt/öskubakki eftir djamm verður lokið. Bróðir minn sem er sjálfur reykingarmaður fór á skemmtistað þar sem búið var að taka bannið upp og sagði að það hafi bara lagst vel í hann. Gashitarar voru úti til að ylja þeim sem vildu reykja, sem og bjórkútur til að redda þeim sem líka voru þyrstir.
Mikil stemming var á dansgólfinu þar sem reyklausa fólkið gat óhrætt dillað sér trítilótt án þess að eiga í hættu að fá brunagöt á sparifötin.
Honum leist vel á þessa breytingu og ég er viss um að þetta verður hið besta mál fyrir þá sem reykja og okkur sem veljum að gera það ekki.
- Játaði Karen