Ljúfa líf...
Gerði aðra tilraun til að versla á föstudaginn og þá gekk allt miklu betur, fann mér fallegan kjól og skó þannig að ég get prinsessast í siglingunni. AIN´T NOTHIN' BUT A HOOCHIE MAMA!!
Eyddi föstudagskvöldinu, hlaupandi með Amir og Hassan um stræti Kabúl, borðaði Granatepli, hló og grét með þeim og kvaddi þá að lokum. Sat og kláraði Flugdrekahlauparann í einum rykk á 5 klukkutímum. Hún er bara dásamleg, og á einhvern ótrúlegan hátt þá gat Khaled Hosseini ekki bara kallað fram hjá mér tilfinningar heldur skynjanir. Ég sver það ég fann lykt og heyrði hljóð á meðan ég las þessa bók hún er svo stórkostlega vel skrifuð. Maður hefur svo oft brennt sig á því að þegar fólk er búið að dásama eitthvað við mann þá verður maður fyrir vonbrigðum þegar maður prufar svo sjálfur. Það á ekki við um þessa bók, hún veldur manni ekki augnabliki af vonbrigðum. Og svo er bíómyndin að koma og ég læddi með fyrir ykkur trailernum sem er frekar "bragðlaus" miðað við efnið en fær þó að laumast með...
Gjössovel.
Á laugardagskvöldið kíktum við Óli út að borða með meiru með Röggu og Sævari. Alltaf gaman að hitta þessar elskur og hressandi að fá sér svona aðeins í aðra tána þó að ég hafi ekki verið hress með það á sunnudaginn. Þegar maður á bókaðan tíma í blóðflögusöfnun eldsnemma á mánudegi þá verður maður að láta allar verkjatöflur vera daginn áður. Það hefði verið gott að geta rennt niður smá verkjastillandi eftir brölt laugardagskvöldsins...en mér var bara nær og beit bara á jaxlinn og reyndi að hunsa timburmennina sem voru í óða önn að smella saman danssviði fyrir heimsmeistarmótið í tréklossadansi í höfðinu á mér.
Ég veit að ég hef sagt ykkur þetta áður en ég ætla bara að segja það aftur ég ELSKA að fara í blóðbankann, mér líður eins og prinsessunni á bauninni í tæpa tvo tíma, allir sjúklega elskulegir, og vinnan mín borgar mér laun á meðan og það eina sem elsku blóðsugurnar mínar vilja í staðinn er að fá að stinga mig með stórri beittri nál og dæla næstum öllu blóðinu mínu úr mér og svo aftur í mig. Í leiðinni fæ ég ástandsskoðun á sjálfa mig, og fæ að heyra hvað ég er ótrúlega hraust og heppin að eiga nóg til af blóði og blóðflögum, nóg fyrir mig og nokkra aðra. Og einhvers staðar þarna úti er fólk sem ég hef ekki hitt að nota hluta af mér til að hressa sig við og hjálpa því þegar lífið liggur við, það verður varla betra. Þannig að kæri lesandi ef þú ert ekki blóðgjafi en mátt vera það, ekki vera eigingjarn...ef þú átt meira en nóg fyrir þig, þá deila góðu börnin með sér!!! Og ef þú vilt það ekki...hugsaðu þá vel um ástæðuna og hugsaðu með þér hvort hún sé þess virði að gefa ekki þessa gjöf. Ohhh ég ætti að vera kynningarfulltrúi hjá Blóðbankanum :D
Þessi vonandi guilt-tripping pistill var í boði Landspítalans-Háskólasjúkrahúss...